news

Skákað í skjóli Barnaskólans á bóndadaginn

26 Jan 2019

Fyrsti dagur Þorra – bóndadagur - byrjaði hjá okkur í Barnaskólanum að morgni með bóndadagskaffi, hafragraut og þorrasmakki samkvæmt þeirri skemmtilegu hefð sem skapast hefur innan Hjallastefnunnar. Þá koma pabbar, afar, bræður og aðrir vinir/vinkonur og njóta samveru með okkur. Skákdagur Íslands er 26. janúar og sökum mikillar grósku í skákinni í skólanum, þótti okkur tilvalið að slá tvær flugur samtímis og halda skákdaginn einnig hátíðlegan á bóndadaginn. Í salinn okkar var tjaldað öllum taflsettum skólans og tefldu gestir við börnin á milli þess sem nartað var í þorramat. Þetta var yndislega falleg og gefandi samvera.

Í tilefni Skákdagsins bauð Skáksambandið skólum að fá skákmeistara í heimsókn og standa fyrir fjöltefli og/eða skákkennslu, sem við þáðum með þökkum. Guðmundur Kjartansson heimsmeistari kom í heimsókn til okkar eftir hádegi og spilaði fjöltefli við öll börn sem vildu – á 15 taflborðum. það er ekki lítið spennandi fyrir hrausta skákdrengi og -stúlkur í Barnaskólanum að fá að hitta Guðmund í návígi og skein gleðin og einbeitingin úr hverju andliti.

Það er gaman að geta þess að í ár eru 10 börn - í leikskólanum Laufásborg - að fara á vegum Hjallastefnunnar að keppa í heimsmeistaramóti barna í skák í Túnis. https://www.hjalli.is/news/althjodlegt-skakmot-i-fyrsta-skiptid-a-laufasborg/

Þessi góði árangur er svo sannarlega hvetjandi fyrir okkur öll og það verður spennandi að fylgjast með þeim!

Næsti skákviðburður í Barnaskólanum verður haldinn á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars, en við stefnum á að fá kvenskákmeistara til að koma og spila fjöltefli við börnin okkar. Sama dag verður mömmum, ömmum, systrum og öðrum vinkonum/vinum boðið í kaffi og meððí og þá verður einnig í boði að tefla við börnin – gott að byrja fljótlega að æfa sig heima.

Við erum innilega þakklát fyrir frábæra mætingu og við þökkum Guðmundi og öðrum gestum bóndadagsins kærlega fyrir yndislegan dag.