Leitin að týnda ljóðinu, haust 2016

Heiti smiðju er Leitin að týnda ljóðinu og er unnið með sama söguþráð fyrir 7, 8 og 9 ára börn.

Í upphafi er börnunum sögð saga um konu sem fannst liggjandi á strönd. Og sagan er á þá leið að það vissi enginn hvaðan hún kom og hvert hún var að fara, ekki einu sinni hún sjálf. Hún var mjög veðruð og illa haldin. Svöng og lúin. Þegar talað var við hana skildi hún og gat svarað, tungumál voru engin fyrirstaða, hún skildi allt. Indíánamál, nefndu það, allt kunni nafnlausa konan. Eina sem hún hafði meðferðis var sjóræningjakort sem hún vissi ekkert um og það eina sem stóð þar var að ef börn myndu lesa, skrifa og flytja henni ljóð myndi minni hennar koma aftur á ný.

Með þessari sögu og afriti af sjóræningjakortinu hefst smiðjan og börnin byrja að vinna verkefni á sjóræningjakortinu til þess að leysa vesalings konuna úr fjötrum minnisleysisins.

Markmið með smiðjunni eru að nemendur kynnist ljóðagerð á skemmtilegan hátt, að þeir öðlist færni í að skapa á fjölbreyttan hátt, að þeir geti tengt saman textíl, myndlist og íslensku í heildstætt verk, og loks að nemendur skemmti sér vel saman.

Verkefnin í smiðjunni miðast við aldur og getu hvers hóps. Má því nefna nokkur eftir aldri:

7 ára gera dúska, vefa og útbúa könguló. Í myndlist fást þau við að skapa persónu, þrykkja og kynnast þekktum listamanni sögunnar. Ljóð fá líka stóran sess og fást börnin við ýmsar vísur og verkefni þeim tengd.
8 ára fást við rúnaletur, læra undirstöðuatriði fyrir vélsaum, sauma poka og læra fáein hugtök tengd vélsaumi. Í myndlist fást þau við persónusköpun, textílmálun og textílskrift sem og að kynnast þekktum listamanni. Ljóð skipa stóran sess, þau ýmist semja eða velja sér ljóð að vinna með bæði á blöðum og í textíl.
9 ára fást við rúnaletur og læra undirstöðuatriði vélsaums og sauma þau bæði poka og púða. Í textíl læra þau að útbúa sín eigin þrykk, þrykkja á púða og fást við persónusköpun sem og að kynnast þekktum listamanni. Þau ýmist semja þau ljóð eða velja sér ljóð sem þau vinna með bæði á blöðum og í textíl.
25.1. 2017 kj