Egyptar, forn menningarþjóð

Markmiðið er að börnin kynnist broti af heimsmenningunni með því að læra um Forn-Egypta, þá miklu menningarþjóð á 2. árþúsundi fyrir Krist.

Börnin fræðast um sögu Egypta, m.a. um fornar helgirúnir sem nefnast híeróglýfur. Þau spreyta sig á að útbúa skart og skreytingar í egypskum stíl. Einnig læra þau um matarmenningu Egypta, búa til egypskar smákökur, hummus og pítubrauð og ræða um menningu og þjóðir fyrr og nú.

Þær námsgreinar sem við höfum í forgrunni eru myndlist, heimilisfræði og saga; mannkyns- lista- og menningarsaga. Við leggjum rækt við víðsýni, fordómaleysi og virðingu fyrir sögu og menningu annarra þjóða.

Henni stýra Ása og Ósk, 9 ára kjarnakennarar ásamt Siggu, Sigríði Elfu Sigurðardóttur textíl- og myndlistarkonu og gestakennara í egypsku smiðjunni á vorönn.

Í annarri opnu vikunni, 20. - 24. mars, þá voru 8 ára börn í egypsku smiðjunni. Þau sýndu sérstakan áhuga á skartgripagerðinni.

Í fyrstu opnu vikunni, 6. - 10. febrúar, voru 9 ára börn í þessari smiðju. Bakstur og veisluhöld fórust þeim vel úr hendi.


30.3. 2017 kj