Innskráning í Karellen
news

Aðventan enn á ný

01. 12. 2021

Kæru fjölskyldur!

Nú er ljúfur tími runninn upp og við hér í Barnaskólanum leggjum áherslu á okkar góðu gildi nú sem endranær. Virðing, vinátta, falleg samskipti, sjálfstraust, öryggi, samstaða og síðast en ekki síst skýrt skipulag og einfaldleiki. Áreiti samtímans getur orðið ansi mikið um þessar mundir og viljum við draga úr streitu eins og við mögulega getum.

Hér er grein eftir okkar bestu Möggu Pálu sem aldrei fellur úr gildi.

Njótið aðventunnar kæru fjölskyldur.


Aðventan enn á ný

.... en hvert er innihaldið ?

Þýska skáldið Göthe sagði víst einhverju sinni að sá sem hugsaði ekki í þrjú þúsund ára samhengi, lifði aðeins fyrir augnablikið. Það er talsvert langur tími og í þessu greinarkorni verður ekki reynt að keppa að því verðuga verkefni heldur látið sér duga að hugleiða svo snautlega skamman tíma sem síðustu eitt hundrað árin í aðventulegu samhengi.

Árlega fylgir haust sumri og jólin aðventu. Á rigningardegi um miðjan nóvember hrekkur þjóðin upp við streituvaldandi sannleika sem mun einkenna alla tilveruna næstu vikur á eftir; „almáttugur, það eru að koma jól“.

Börn landsins fara ekki varhluta af uppgötvun þessa sannleika. Í fjölskyldunni og á leikskólum matast þau á viðhorfum gagnvart jólaundirbúningi og þar með jólahátíðinni sjálfri og viðhorfin verða lífseig eins og allir vita sem hafa reynt að skoða sín eigin. Framtíðarinnar vegna er því maklegt að skoða ögn hvaða viðhorf við ætlum börnum okkar að færa áfram og horfum fyrst aftur í tímann því þar liggur grunnur þessa dags.

Tilbreyting eða aukning

Ef litið er til frásagna í ævisögum, ljóðum og barnabókum fyrri tíma finnst mér eitt hugtak grundvalla öll hin. Það er hugtakið TILBREYTING sem tengist órjúfanlega öllu saman. Eftirvænting og tilhlökkun eru nefnd, kertaljósum og birtu er lýst, litlum gjöfum svo sem nýrri flík, viðmót fólks breyttist og helgiblær hvíldi yfir því allt varð öðru vísi en á hvunndögunum. Þannig varð það tilbreytingin sem gaf hátíðinni gildi.

Síðan skall velmegunin á eins og hver önnur stórhríð á vetri - nema hvað það virðist aldrei ætla að stytta upp. Nú er aðventan og jólahátíð barna ekki TILBREYTING heldur AUKNING þar sem ekkert er nýtt - aðeins dálítið meira af öllu sem fylgir velmegunarlífi þjóðarinnar. Meira af mat og meira sælgæti og fleiri gjafir og meiri ofneysla og meiri streita og meira skrúbberí og oftar farið í búðir og veifað kreditkorti og oftar kvartað undan þreytu og oftar lýst yfir áhyggjum af því að fjölskyldan eigi ekki fyrir herlegheitunum.

Á leikskólunum er drifin upp desemberjólaáætlun og kennd fleiri jólalög og föndrað meira og keppst við að klára og starfsfólkið meira þreytt og undirmönnun meiri því örmagna húsmæður leikskólanna þurfa bökunarfrí og skreppa meira í bankann og meira í búðir. Leikskólabörnin skynja tilbreytingu þegar fyrsti jólasveinninn tifar af stað með fyrstu skófyllina - en síðan er sú gleði frá þeim tekin og farið að bíða eftir fleiri skóáfyllingum og meiri gjöfum og samanburði milli félaganna hver hafi fengið mest og best. Loks er þetta undarlega fyrirbæri að hótanir um að jólasveinninn gefi bara prúðu börnunum reynist marklaust hjal því hann mokar í þau gjöfum hvernig sem þau svo haga sér. Annað var hlutverk jólasveinanna á Íslandi áður þegar þeir með fulltingi æðri máttar s.s. Grýlu heitinnar komu skikki á hegðan og framferði barna.

Hinn dapri misskilningur

Markaðshyggjan og ofneyslan nærast sem aldrei á þreyttum bökum okkar sem tökum þátt í þessum dansi kringum gullkálfinn á aðventu - af tómum misskilningi því ekki veldur illur hugur okkar jólastreitunni. Það er dapurlegt að tilbreytingin sem áður fylgdi jólaundirbúningi og jólahátíð skuli hafa horfið smátt og smátt af því að þessi tilbreyting er löngu orðið daglegt brauð. Við sem trúðum að þetta væri hinn raunverulegi jólaundirbúningur því umstangið er arfur foreldra okkar sem sátu ekki við gnægtaborðið alla daga ársins eins og börnin okkar gera. Hvað er nýtt við að geta borðað lyst sína af góðum mat eða hakka í sig sælgæti? Hvar er nýjabrumið við gjafir fyrir börn sem fá endalaust allt sem þau þurfa - og þakka sjaldnast fyrir sig? Hvað er merkilegt við nýja flík fyrir börn sem halda að jólakötturinn sé bröndóttur heimilisköttur? Hvað er gleðin yfir kertaljósum og birtu á heimilum þar sem aldrei hefur þurft að spara ljósmetið?

Með fáum orðum má einfaldlega spyrja hvað væri börnum í dag tilbreyting? Skýrlega ekki að halda áfram við að ofkeyra okkur við að margfalda upp daglega brauðið.

Hver veit nema börnum okkar væri fremur tilbreyting í friði og ró, hlýju, hjartagleði og jákvæðum samvistum? Hver fjölskylda og hver skóli þarf að átta sig á hvernig börn og fullorðnir geta saman skapað tilbreytingu í hið hvunndagslega strit í stað þess að margfalda það - hvernig börn og fullorðnir geta saman skapað raunverulegt innihald í myrkasta tíma ársins í stað þess að bíða eftir jólum í spennu og streitu.

Margrét Pála Ólafsdóttir

16. nóv. 1995


Greinin birtist í blaði leikskólakennaranema 1995

© 2016 - Karellen