Innskráning í Karellen
news

Finnska leiðin í Helsinki

02. 11. 2022

Starfsfólkshópur Barnaskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ fór í námsferð til Helsinki í Finnlandi dagana 27. - 30. október.

Mikið hefur verið rætt um ,,finnsku leiðina” í skólasamfélaginu og sérstaklega verið horft til Finna þegar rætt er um sveigjanleika fyrir kennara og nemendur. Eins hefur námsárangur Finna verið mjög góður þegar horft er til alþjóðlegra kannana en þar hefur verið lagt upp með heildstætt nám og að mæta hverju barni þar sem það er statt.

Fyrsta heimsóknin var í alþjóðlegan einkarekinn leikskóla sem heitir Into Pre-school og kynntist hópurinn þeirra starfsemi. Í skólanum er töluð enska og finnska og börnin eru frá 2 til 6 ára. Leikskólinn státar af glæsilegu leiksvæði úti en hann er staðsettur við skóg og þar er líka strönd. Engan skal undra að útikennsla er stór partur af starfi skólans.

Það var tekið vel á móti hópnum sem fékk að skoða skólann, sitja tónlistartíma þar sem unnið var með rafleiðni ávaxta, grænmetis og tóna, fræðslu um skólann, gönguferð á útisvæðinu og öllum gafst færi á að spyrja um starfsemina.

Mikil hlýja og nánd einkenndi samskipti barna og kennara og vakti það athygli hvað Finnar

eru lítið uppteknir af því að mælast hátt í könnunum og að litið sé til þeirra hvað varðar skólamál.

Næsta skólaheimsókn var í skólann Helsinki Normal Lyceum sem er grunnskóli fyrir 7 - 19 ára en sem stendur er ekki miðstig í skólanum. Skólinn var upphaflega eingöngu drengjaskóli sem var stofnaður árið 1864. Stúlkur fengu inngöngu í skólann um 1974 og hefur verið kynjablandaður síðan. Þessi skóli er einnig móttökuskóli fyrir kennaranema og hefur mjög gott orðspor.

Hópnum var skipt í tvennt og fór annar hópurinn í kennslustund með 7 ára í stærðfræði og hinn í finnskukennslu með 14-15 ára. Eitt af því sem vakti athygli var söguaðferð sem var beitt í stærðfræðitímanum, stuttur skóladagur barnanna og mikil ró sem einkenndi barnahópana. Kennarar voru sammála því að þau leita allra leiða til að ná til hópsins og að finna fyrir ró í kennslustund er þeim mikilvægt. Lestrarkennsla hefst ekki fyrr en um 7 ára en þess meiri áhersla er lögð á félagsfærni og tilfinningaþroska fram að því.

Flest úr hópnum kynntu sér einnig finnska saunu og sjóbað, heimsóttu bókasafnið Oodi í Helsinki sem er sennilega með þeim glæsilegustu í heiminum, borðuðu góðan mat, nutu borgarinnar og styrktu vináttu tengslin í starfsmannahópnum

© 2016 - Karellen