news

Aðventa á ljúfum nótum í Barnaskólanum

14 Des 2018

Ýmislegt er sýslað í Barnaskólanum á Vífilsstöðum á aðventunni og við leggjum áherslu á notalegt og rólegt andrúmsloft. Þrátt fyrir heldur rysjótta tíð undanfarið eru börnin dugleg að vera úti – klæða sig bara vel.

Umhverfið okkar býður upp á óþrjótandi möguleika, yngri börnin okkar fóru í morgun í Litla-Skóg með nánustu ættingjum sem komu í heimsókn til okkar og ,,gróðursettu” epli. Það var gert fyrir smáfugla og hagamýs ef einhverjar skyldu vera matarþurfi. Sum börnin töldu sig sjá jólaköttinn milli trjánna og olli það smávægilegum áhyggjum.

Hóllinn okkar dregur að sér börn og grágæsir sem halda til hér í nágrenninu yfir veturinn. Fimm ára börnin kunna að meta rokið og gæsirnar og reyna að hefja sig til flugs eins og þær. Hugurinn ber þau sem betur fer aðeins hálfa leið.

Eldri börnin eru sum búin að baka piparkökur og önnur hafa reist lítil piparkökuhús – margt smátt gerir eitt þorp.

Afraksturinn dásamlega fallegur hjá þeim öllum og mikil gleði hefur ríkt á öllum kjörnum.