Innskráning í Karellen
news

Núvitund og sjálfsstyrking á 6 ára stúlknakjarna

19. 04. 2024

Við á 6 ára stúlkna kjarna höfum mikið verið að kynnast og vinna með núvitund og sjálfstyrkingu í okkar starfi undanfarnar vikur. Til að byrja með horfðu stúlkurnar á nokkur myndbönd sem útskýra vel öndun og hugleiðslu. Það hjálpaði stúlkunum svo við að framkvæma æfingarnar þegar þær áttuðu sig betur á tilgangi þeirra og ávinningi. Ávinningur þess að börn stundi núvitundaræfingar er margþættur og hefur jákvæð áhrif á bæði líðan og námsárangur þeirra. Við tölum um að þegar við erum í núvitund séum við að æfa einbeitingu og athygli og að við þurfum að æfa það rétt eins og við æfum okkur að lesa og skrifa.

Á hverjum degi gerum við öndunaræfingar saman á mottu og síðan hugleiðsluæfingu í beinu framhaldi af því. Stúlkurnar bjuggu til sína eigin ,,öndunar-stjörnu’’ þar sem það hjálpar þeim að hafa eitthvað áþreifanlegt og sjónrænt til að æfa öndunina. Þetta er afar ánægjuleg og róleg stund fyrir alla svona í miðju amstri dagsins.

Samhliða núvitundaræfingunum hafa stúlkurnar unnið markvisst með sjálfsmynd sína, sjálfstraust og styrkleika. Þessa vinnu hafa þær sett saman í sína eigin sjálfstyrkingarbók þar sem þær gerðu fallegar sjálfsmyndir á forsíðuna. Í bókinni koma fram falleg orð um þær sjálfar, frá þeim sjálfum og öðrum vinkonum, styrkleikar þeirra, hvað þær eru góðar í, uppáhalds hugleiðslu- og öndunaræfingar og fleira. Það hefur verið dásamlegt að sjá allar stúlkurnar blómstra og styrkjast á svo margan hátt í gegnum þetta verkefni!

Það sem hefur líklega staðið upp úr í þessu skemmtilega og ekki síður lærdómsríka verkefni eru gönguferðir þar sem við hugleiðum í náttúrunni, göngum í fullri núvitund og finnum styrkleika okkar í verki.

© 2016 - Karellen