Innskráning í Karellen
news

​Ævintýralegur Eplamorgun

12. 12. 2023

Fimmtudaginn 7.desember sl. var árlegur Eplamorgun í Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum.

Sú hefð hefur skapast í skólanum að á Eplamorgni er foreldrum boðið með börnum í skólann þar sem fjölskyldur hjálpast að við að þræða lúin epli á snæri sem svo eru hengd á tré í skóginum við skólann. Eplin eru gott fóður fyrir fuglana þegar harðnar í ári og frostið lætur á sér kræla. Foreldrafélagið bauð upp á heitt súkkulaði með rjóma og piparkökur sem var gott að gæða sér á þennan kalda en fallega morgun.


Foreldrum var einnig boðið á söngfund í salnum þar sem Hildur Guðný lék á píanó og fjölskyldur sungu saman nokkur lög sem þau hafa verið að æfa undanfarið. Allir morgnar í Barnaskólanum byrja á söng og var upplagt að lofa foreldrum að taka þátt.

Í skóginum var varðeldur sem hægt var að orna sér við þegar eplin voru fest upp í tré.

Falleg samvera í aðdraganda jóla með það markmið að hlúa að þeim sem minna mega sín í kuldanum.


© 2016 - Karellen