Innskráning í Karellen
news

Hátíðarkveðja úr Barnaskólanum

23. 12. 2023

Starfsfólk Barnaskólans óskar kærum fjölskyldum, vinum og vinkonum gleði- og gæfuríkra hátíða.

Veturinn fór vel af stað þar sem rýmra var um okkur með tilkomu nýs húsnæðis á lóðinni, Bjálka, þar sem 9 ára börnin hafast við í vetur. Listaloftið hefur verið vel nýtt undir handleiðslu myndlistarkennara og frístundastarfsfólks. Salurinn okkar hefur að sama skapi verið vel nýttur fyrir hvers kyns uppákomur, gleði og söng.

Skemmtileg nýbreytni hefur verið í foreldrasamstarfi en Hrekkjavökuhátíðin ber líklega hæst. Það var einstakt að upplifa samvinnu og einróma vilja foreldra að gera börnum og fjölskyldum glaðan dag með hryllilegum búningum, draugahúsi að ógleymdum hræðilega girnilegum veitingum.

Á hverjum kjarna hefur fallegt starf verið unnið með Hjallastefnuna yfir og allt um kring þar sem stúlkur og drengir fá tækifæri til að eflast og þroskast með sína eigin styrkleika að leiðarljósi.

Fyrst og síðast er þakklæti okkur efst í huga með tilhlökkun fyrir nýjum ævintýrum árið 2024!

Fyrir hönd starfsfólks Barnaskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ,

Anna Margrét og Lovísa Lind


Myndir frá hátíðlegustu stund ársins, Jólasöngfundi, fylgja með. Það var þaulreynt tónlistarfólk sem stýrði stundinni með hljóðfæraleik og söng; þau Sigríður Thorlacius, Ómar Guðjónsson og Laufey Sigurðardóttir.


© 2016 - Karellen