Innskráning í Karellen
news

Myndlistarkennsla í Barnaskólanum

13. 03. 2024

Á vorönn sækir miðstigið, 7 - 8 ára kjarnar og 5 ára kjarnar myndlist einu sinni í viku upp á listaloftið okkar. Allir kjarnarnir hófu árið á að mála myndir af stjörnugeiminum og fyrirbrigðum hans með aðferðum afstrakt expressjónismans.

Fimm ára kjarnar hafa svo unnið að formfræðiæfingum og myndskreytingum við ýmis ævintýri um álfa, dverga og í konunga- og drottningaríki.

Sjö til átta ára kjarnar máluðu málverk í anda impressjónismans, þar sem ævintýraleg litbrigði voru notuð til að myndskreyta sögu um dularfullan Álfaklett á Norðurlandi. Þjóðsögurnar Nátttröllið og Djákninn á Myrká eru þeim núna innblástur að myndum og sjálflýsandi leirskúlptúrum sem munu nýtast sem annað hvort trölla- eða draugafælur.

Miðstigið hefur verið í tímum þar sem áherslan er á skapandi ferlið í heild sinni. Verk er þróað frá hugmyndakorti í gegnum skissugerð, módelgerð og margvíslegar tilraunir. Sjálft viðfangsefnið er þeim frjálst og flestir hafa kosið að vinna að skúlptúrum úr leir eða gifsi.


© 2016 - Karellen